Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
Þriðjudagur, 4. apríl 2006
Lítil bók um goðsagnir
Um daginn sá ég mér til töluverðrar ánægju að búið er að þýða litla bók eftir Karen Armstrong, A Short History of Myth. Íslenska þýðingin heitir Goðsagnir í aldanna rás - þýðandinn er Ingunn Ásdísardóttir. Þörf hefur verið á viðlíka stuttu yfirliti á íslensku, og því ber að fagna þessu framtaki.
Ég tók mér eina kvöldstund í að lesa þessa bók síðastliðið haust og hafði gaman af. Þetta er að vísu eðlinu samkvæmt svolítið léttmeti, þannig að snilld Armstrong nær ekki að njóta sín nema að litlu leyti, en engu að síður finnst mér ástæða til að mæla með henni - sérstaklega fyrst hún er nú til á íslensku.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 16:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 1. apríl 2006
Dennett í álögum
Ég held ég hafi aldrei lesið neitt eftir Daniel C. Dennett sem ég varð ekki samtímis pirraður yfir og heillaður af: Pirraður vegna þess að framsetning hans er ætíð svo einhliða og þröngsýn, svo blind gagnvart augljósum mótrökum að furðu má sæta (sérstaklega í ljósi þess að hann er heimspekimenntaður); og heillaður vegna þess hve framsetningin er skýr og beinskeytt en um leið full af áhugaverðum samlíkingum og athugasemdum, auk þess sem grunnsjónarmið hans eru oft ekki langt frá mínum eigin.
Þetta á einnig við um nýjustu bók hans, Breaking the Spell: Religion as a Natural Phenomenon, sem er ákaflega læsileg pólemík gegn trúarbrögðum almennt, en þó einkum gegn trúarbrögðum í Bandaríkjunum sérstaklega. Þrátt fyrir þennan ögn bandaríska vinkil er þetta er semsagt efni sem að öðru jöfnu ætti að falla gamalgrónum guðleysingja eins og mér vel í geð. Það sem er óvenjulegt (og ákaflega pirrandi) við bókina er hins vegar grunnhugmyndin sem Dennett reynir að byggja á í trúarbragðagagnrýni sinni: að trúarbrögð séu mem (memes), þ.e. hugmyndaklasar, sem séu hliðstæð genum að því leyti að þau geti búið til afrit af sjálfum sér og hafi jafnframt eins og genin það eitt að markmiði að fjölga sjálfum sér án tillits til velferðar eða farsældar hýsla sinna (mannanna) - að trúarbrögð séu þannig að mörgu leyti sambærileg við vírusa sem ráðast á miðtaugakerfið og fá hýsilinn til að hegða sér stórskringilega og gegn eigin hagsmunum vegna þess eins að slík hegðun eykur möguleikana á því að vírus-genin/trúarbragða-memin berist áfram.
Mem-hugtakið er svo óljóst og svo augljóslega byggt á stoðlausri (eða a.m.k. stoðlítilli) samlíkingu, að mér er gersamlega óskiljanlegt hvernig nokkur gagnrýninn og gáfaður maður (sem Dennett náttúrulega er) getur tekið það alvarlega. Það er gaman að leika sér að því óformlega - en að taka það bókstaflega, eins og það væri jafn fræðilega og traustlega grundvallað og hugtakið "gen", er hreint og beint fáránlegt. Að yfiræra hugtök og skýringarmynstur náttúruvalsstefnunnar (selectionism) í þróunarlíffræði yfir á trúarbrögð getur verið góð leið til að lífga upp á samræðurnar í tesamsætum, en ætti ekki að verða rauði þráðurinn í bók eftir virtan fræðimann.
Ég vona að Dennett losni brátt úr þessum mem-álögum, sem hafa verið að ágerast a.m.k. síðan hann skrifaði Consciousness Explained. Ég vona að hann hætti að nota hið gagnslausa og villandi hugtak "mem" og hætti um leið að ofnota skýringarmynstur sótt beint úr skrifum náttúruvalsstefnumanna (eins og Dawkins) og þróunarsálfræðinga (eins og Pinker). En voðalega er ég hræddur um að hann hafi orðið fyrir illræmdu smiti frá hættulegu memi sem kalla mætti "þróunarlíffræði yfirfærð á önnur svið á óviðeigandi hátt". Og voðalega er ég hræddur um að þetta mem muni draga til dauða alla skapandi og sjálfstæða hugsun hans. Þvílíkt hefur gerst hefur áður hjá öðru gáfufólki: áðurnefndur Dawkins er ágætt dæmi úr nútímanum en Ernst Haeckel og Herbert Spencer úr fortíðinni.
Kannski væri besta læknisráðið fyrir Dennett að halda sig heima í Tufts University og tala meira við starfsbróður sinn þar, Ray Jackendoff, sem er einn frumlegasti og dýpst þenkjandi málvísindamaður samtímans og fer m.a. mjög skynsamlegan meðalveg í skoðunum sínum varðandi þýðingu þróunarfræða fyrir mannvísindi. Ég mæli eindregið með bók Jackendoffs frá 2002, Foundations of Language: Brain, Meaning, Grammar, Evolution.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)