Færsluflokkur: Bækur
Þriðjudagur, 27. júní 2006
Wang Wei: Dádýrslundur
Dádýrslundur
eftir Wang Wei (701-761)
Hæðin auð: engan að sjá,
aðeins raddir í fjarska.
Skógardjúp: ský frá sólu,
skín af blágrænum mosa.
Fyrir nokkru var ég að lesa prýðilegt ljóðaúrval, A Book of Luminous Things, sem Czeslaw Milosz tók saman. Rétt eins og í skáldskap Milosz sjálfs eru stutt, hnitmiðuð og lýrísk ljóð með skýru myndmáli ráðandi í bókinni, og því kemur það ekki á óvart að þarna er að finna allmörg ljóð eftir kínverksk skáld forn, m.a. þríeykið frá Tang-tímanum: Li Bai, Du Fu og Wang Wei. (Reyndar heldur Milosz sig við hið eldra Wade-Giles umritunarkerfi, þannig að hann ritar nöfn tveggja hinna fyrrnefndu sem "Li Po" og "Tu Fu").
Í framhaldi gróf ég fram úr hillunum þær allt of fáu bækur sem ég á með kínverskri ljóðlist og sökkti mér í þær næstu kvöld á eftir. Eins og svo oft áður voru það hinar frábæru þýðingar A. C. Grahams í Poems of the Late Tang sem ég dvaldi lengst við, en þarna var einnig bók sem ég hafði keypt á útsölu fyrir mörgum mánuðum og hafði nánast gleymt: Three Chinese Poets með þýðingum eftir Vikram Seth.
Fyrsta þýðingin í þeirri bók er frægt ljóð eftir Wang Wei:
Deer Park
Empty hills, no man in sight -
Just echoes of the voice of men.
In the deep wood reflected light
Shines on the blue-green moss again.
Myndin og tilfinningin í þessu ljóði snart mig, en mér fannst falskur hljómur í síðari tveimur línunum í þýðingunni. Þær pirruðu mig af einhverjum ástæðum, og mig langaði því að bera hana saman við aðrar og helst líka finna bókstaflega þýðingu. Mig rámaði í að ég hafði lesið þetta ljóð áður í annarri þýðingu, en fann það ekki í mínum bókum. Þá leitaði ég auðvitað á netinu og komst að því að það hefur komið út heil bók með mismunandi þýðingum á þessu ljóði: Nineteen Ways of Looking at Wang Wei eftir Eliot Weinberger og Octavio Paz. Ég fann líka síðu með þessum (?) nítján þýðingum ásamt ákaflegra fróðlegri og gagnlegri vefsíðu með ljóðinu á kínversku þar sem hvert rittákn var tengt við umritun og uppflettningu í orðabók.
Fyrst ég nú var kominn með allar þessar upplýsingar ákvað ég á endanum að reyna að þýða ljóðið sjálfur - taldi það bestu leiðina til að opna leyndardóma þess. Útkoman sést efst í þessari bloggfærslu. Nú vil ég hins vegar greina ögn frá hugleiðingunum og ferlinu á bak við þýðinguna. Og þótt ég sé enn ekki ánægður með síðustu tvær línurnar í þýðingu Seths, verð ég að bæta við, að ég er eiginlega jafn óánægður með tvær síðustu línurnar í minni eigin þýðingu. Sama hversu góðar ljóðaþýðingar annars eru, takmarka þær líklega ávallt túlkunarmöguleika lesandans (samanborið við þann sem les ljóðið á frummálinu), enda verður þýðandinn að velja ákveðna túlkun sem hann tekur mið af. Og þótt þær séu einfaldar á yfirborðinu eru tvær síðustu línurnar í ljóði Wangs af einhverjum ástæðum sérlega viðkvæmar fyrir þessu. En meira um það síðar.
Sé hinum 25 rittáknum í ljóðinu flett upp einu af öðru, án tillits til samhengis, verður til eftirfarandi merkingarleysa:
tómur fjall ekki virðist maður/fólk
samt/bara/þó heyra maður/fólk tal/rödd hljóma
koma-til-baka bjart fara-inn-í djúpt skógur
endur- upplýsa/endurspegla blágrænt/grænt mosi/skófir ofan-á/fyrir-ofan
Titillinn, lù chái, útleggst sem "dádýr (eldi-)viður" með sömu aðferð, og er greinilega staðarheiti. Flestar ensku þýðingarnar þýða þetta sem "Deer Park" eða "Deer Park Hermitage" og vísa þannig til hinnar hefðbundnu búddhísku túlkunar ljóðsins; en fyrsta ræðan sem Búddha hélt eftir uppljómun sína var einmitt í dádýrafriðlandinu Sarnath (eða Mrigadava) í Uttar Pradesh.
Þótt óneitanlega sé ákveðinn dulrænn blær yfir ljóðinu, er ég alls ekki sannfærður um að hér sé um beina tilvísun að ræða. Ástæðan fyrir vafa mínum er sú að ljóðið er hluti af alllöngum bálki sem lýsir ferð sem Wang Wei fór í með vini sínum, Pei Dei. Auðvitað er það líklega öðrum þræði uppdiktuð og andleg ferð fremur en raunveruleg, en engu að síður þykir mér sennilegt, að hann hafi haldið sig við raunveruleg staðanöfn í ljóðabálknum. Því þykir mér eðlilegra að snara heitinu sem "Dádýrslundur" fremur en sem "Dádýrafriðland" eða "Dádýragarður". Ef um búddhíska tilvísun er að ræða, er hún ekki augljós í upprunalegu útgáfunni, og ætti því heldur ekki að vera það í þýðingunni.
Í þeirri trú að titillinn bendi til trúarlegs boðskapar hafa margar þýðingar tekið sem gefið að í ljóðinu sé um kvöldsól að ræða, þar sem kvöldsólin sé í vestri - en vestur er sú átt sem paradís Amitabha-búddhista, "Hið hreina land", er sögð vera í. Ég sé hins vegar enga stoð fyrir þessu; það er einfaldlega ekkert í ljóðinu sem gefur til kynna hvenær dags skáldið er á gangi um skóginn.
Tiltölulega sterkasta búddhíska vísunin í ljóðinu er í raun orðið zhao (upplýsa/endurspegla) í síðustu línunni. Ég verð að viðurkenna að mér tókst ekki að koma henni beint til skila í þýðingunni - en ég reyni að gera það óbeint með því að draga fram samsvörun milli skógarins og stöðuvatns með orðinu "skógardjúp" og með því að nota "af" fremur en "á" í síðustu línunni.
Ég þurfti að taka ákvörðun um form þýðingarinnar. Kínverska 4x5-formið (4 línur með 5 rittáknum/atkvæðum í hverri línu) er tiltölulega strangt, þannig að mér fannst óviðeigandi að þýða ljóðið á algerlega frjálsu formi. Á hinn bóginn fannst mér mikilvægt að halda samþjöppuninni og fannst ólíklegt að mér tækist það ef ég sæktist eftir því að ríma þetta eins og Seth gerir. Á endanum ákvað ég bara að nota stuðla og höfuðstafi og reyna að sjá til þess að það væri sami fjöldi atkvæða í hverri línu (hér að ofan eru þau sjö, en ég reyndi líka fyrir mér með átta atkvæða útgáfu).
Fyrstu tvær línurnar er auðvelt að þýða. Eina ákvörðunin sem þýðandinn þarf að taka er hvort réttara sé að þýða orðið shan sem "fjall", "hæð" eða "hæðir". Séu ensku þýðingarnar bornar saman virðist algengara að talað sé um fjall, en á endanum ákvað ég að nota "hæð" - ekki síst vegna þess að það gerði það auðveldara að fá nothæfa sjö atkvæða línu...
En sem áður sagði eru síðustu tvær línurnar til vandræða. Eins og kemur fram ef maður ber saman hinar ýmsu ensku þýðingar er hægt að túlka þær á marga vegu. Hér nefni ég helstu spurningar sem ég þurfti að íhuga í sambandi við þær:
- Til hvers vísar fan (koma til baka/snúa við) í þriðju línu? Er það skáldið sem fer aftur inn í skóginn og kemur á stað þar sem ljósið endurvarpast af blágrænum mosa? Eða er skáldið inni í skóginum og það er ljósið sem kemur aftur (e.t.v. vegna þess að sólin kemur upp eða vegna þess að ský dregur frá sólu)?
- Hversu mikið ætti maður að leggja í síðasta orðið, shang (ofan á/fyrir ofan)? Er átt við að mosinn sé fyrir ofan skáldið (þ.e. væntanlega á trjábolunum), þ.e. að þetta séu skófir fremur en mosi? Eða er átt við að ljósið skíni að ofan niður á mosann, sem þá er á jörðinni?
- Hvað með litinn á mosanum? Er hann blágrænn eins og flestir þýðendur halda fram, eða er hann þvert á móti grænn? Eða eru þetta kannski óvenjulegar, bláar skófir?? Í nútíma kínversku getur qing merkt bæði grænt, blátt og blágrænt, en það eru líka til sérstök orð fyrir blátt (lán) og fyrir grænt (lü). Nú veit ég ekki hvernig þetta var í fornkínversku, en mér finnst ólíklegt að Wang hafi notað ónákvæmt orð ef hann hefði getað notað nákvæmt. Þannig að mosinn var líklega hvorki blár né grænn - hann var semsagt blágrænn.
- Hvað með orðið ru (djúpt) í þriðju línu? Er vísað til þess að skáldið sé langt inni í skóginum, að skógurinn sé þéttur, eða einfaldlega að trén séu há svo að ljósið þurfi að leita djúpt til að komast að skógarbotninum?
- Orðin fu (endur-) zhao (upplýsa/endurspegla) í síðustu línunni benda auðvitað til þess að ljósið skíni á mosann og endurvarpist einhvern veginn af honum. En er einfaldlega átt við að hann sé svo litsterkur og fangi svo augað miðað við umhverfið að hann virki því sérstaklega uppljómaður? Eða er kannski dögg á mosanum, þannig að hann hreinlega glitrar? Eða er um það að ræða að einn sólargeisli brjótist gegnum laufþykknið og uppljómi ákveðinn mosablett, en allt annað sé enn í skógarrökkrinu?
Að lokum gat ég ekki gert annað en að velja mér svör við þessum spurningum í samræmi við það sem mér fannst eðlilegt. Þannig að í þýðingunni efst í þessari færslu er sumum spurninganna svarað, aðrar faldar - en sumum er áfram haldið opnum.
Bækur | Breytt 24.4.2007 kl. 08:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 4. apríl 2006
Lítil bók um goðsagnir
Um daginn sá ég mér til töluverðrar ánægju að búið er að þýða litla bók eftir Karen Armstrong, A Short History of Myth. Íslenska þýðingin heitir Goðsagnir í aldanna rás - þýðandinn er Ingunn Ásdísardóttir. Þörf hefur verið á viðlíka stuttu yfirliti á íslensku, og því ber að fagna þessu framtaki.
Ég tók mér eina kvöldstund í að lesa þessa bók síðastliðið haust og hafði gaman af. Þetta er að vísu eðlinu samkvæmt svolítið léttmeti, þannig að snilld Armstrong nær ekki að njóta sín nema að litlu leyti, en engu að síður finnst mér ástæða til að mæla með henni - sérstaklega fyrst hún er nú til á íslensku.
Bækur | Breytt s.d. kl. 16:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)